Icelandair mun á næsta ári auka umsvif sín umtalsvert samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Þar segir að flugáætlun ársins verði sú stærsta í sögu félagsins og að hún verði aukin um 13% miðað við það sem nú er. Bætt verður við nýjum áfangastað, Denver í Colorado-fylki í vesturhluta Bandaríkjanna, og verða áfangastaðir félagsins því 31 talsins. Auk þessa sem stefnt er að því að farþegafjöldi verði um 10 þúsund á sólarhring eða um 2 milljónir yfir árið sem er 75 ára afmælisár Icelandair.

Samkvæmt tilkynningunni er stefnt á allt að 400 flugum á viku og auk þess að auka umsvif félagsins utan sumartímans sem jafnan er sá annamesti. Flugfélagið mun nýta 16 Boeing 757 flugvélar til þess að anna þessari starfsemi en mikill vöxtur hefur verði í starfsemi félagsins undanfarin ár, 52% frá árinu 2008 nánar tiltekið.

„Við erum að grípa tækifæri til þess að vaxa með arðbærum hætti. Áætlanir fyrir yfirstandandi ár eru að ganga eftir og markaðsrannsóknir okkar erlendis sína að framundan eru möguleikar sem við viljum ekki láta framhjá okkur fara. Okkur er full alvara þegar við segjumst ætla að auka ferðamannastraum utan háannatímans og það hefur m.a. haft áhrif á þá ákvörðun að hefja flug til og frá Denver í Colorado allt árið um kring. Við sjáum fyrir okkur að vetraráætlun 2012-2013 verði meiri að umfangi en sumaráætlun var fyrir tveimur árum ", segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair. 

Sem fyrr segir mun Icelandair hefja áætlunarflug til Denver í Colorado frá og með 10. maí á næsta ári. Flogið verður fjórum sinnum í viku allt árið.

Denver er þannig nýjasti áfangastaður Icelandair í Norður Ameríku og jafnframt níunda borgin sem félagið flýgur til.

„Denver í Colorado hefur áhugaverða sérstöðu og hentar starfsemi Icelandair vel,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningu frá félaginu í morgun.

„Í fyrsta lagi er á þessu svæði töluverð velmegun, menntunarstig er hátt og áhugi á náttúru og útivist er meiri en víðast hvar annars staðar. Við ætlum okkur því að ná fjölda ferðamanna til Íslands frá þessu svæði. Í öðru lagi er þetta spennandi áfangastaður, m.a. vegna stórbrotinnar náttúru og hinna heimsþekktu skíðasvæða í Aspen og Vail. Það gerir okkur kleyft að fljúga jafn mikið á veturna og á sumrin til Denver, sem er óvenjulegt og mjög jákvætt. Í þriðja lagi er ljóst að flug okkar, með tengingu á Íslandi, er frábær kostur fyrir þá sem þurfa að ferðast milli Denver og ýmissa Evrópuborga. Lítið sem ekkert beint flug er frá Denver til Evrópu þó svo rannsóknir sýni mikið farþegastreymi og við ætlum okkur að ná í sneið af þeirri köku.“

Flugvöllurinn í Denver fimmti stærsti flugvöllurinn í Bandaríkjunum og sá tíundi stærsti í heiminum. Flugtími milli Íslands og Denver er um sjö og hálf klukkustund.