Icelandic Group hefur keypt allt hlutafé í Pickenpack ? Hussman & Hahn Seafood, stærsta framleiðslufyrirtæki Þýskalands á sviði frystra sjávarafurða. Kaupverðið verður greitt með nýju hlutafé í Icelandic Group. Eftir viðskiptin og hlutafjáraukningu í Icelandic Group munu hluthafar Pickenpack eiga 21,25% hlutafjár í Icelandic Group. Miðað við markaðsverð hlutabréfa Icelandic Group nemur kaupverð Pickenpack um 5,5 milljörðum króna.

Vaxtaberandi skuldir Pickenpack við kaupin eru um 80 milljónir EUR eða 5,9 milljarðar króna. Kaupverðið er háð fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem áætlað er að verði lokið 18. nóvember 2005. Jafnframt eru kaupin háð fyrirvara um að hluthafafundur Icelandic Group samþykki hlutafjárhækkun.

Með kaupunum styrkir Icelandic Group stöðu sína sem leiðandi fyrirtæki í sölu og framleiðslu sjávarafurða á heimsvísu. Áætluð velta Pickenpack á árinu 2006 er 194 milljónir EUR eða um 14 milljarðar ISK. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) er áætlaður 15 milljónir EUR eða rúmur milljarður ISK. Með kaupunum aukast tekjur Icelandic í Evrópu verulega eða um 28% árið 2006.

Stærstu hluthafar Pickenpack eru Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Pickenpack og Samherji. Þessi viðskipti styrkja samstarf Icelandic Group og Samherja en Samherji hefur verið stór viðskiptavinur Icelandic Group. Jafnframt hefur Finnbogi Baldvinsson verið ráðinn forstjóri Icelandic Europe.

Um Pickenpack

Pickenpack rekur fiskréttaverksmiðju í Luneburg í Þýskalandi þar sem framleidd eru um 70.000 tonn af frystum afurðum árlega. Þá rekur Pickenpack kavíarverksmiðju í Cuxhaven og eru þar árlega framleidd 700 tonn af afurðum. Um 65% af sölu félagsins er í Þýskalandi. Starfsmenn félagsins eru um 600.

Velta Pickenpack á árinu 2005 er áætluð 182 milljónir EUR eða rúmlega 13 milljarðar ISK og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) er áætlaður tæplega 14 milljónir EUR eða um 1 milljarður ISK.

Samlegð Pickenpack og Icelandic Group

Með kaupunum styrkir Icelandic Group markaðsstöðu sýna á meginlandi Evrópu verulega. Jafnframt verður unnt að ná fram hagræðingu í framleiðslu á frystum afurðum með samstarfi Pickenpack verksmiðjunnar í Þýskalandi og Coldwater verksmiðjanna í Grimsby.

Möguleikar eru á markaðssetja vörur Pickenpack í markaðs- og sölukerfi Icelandic í Evrópu.

Í kjölfar aukinnar stærðar skapast tækifæri til hagræðingar í rekstri Icelandic Group segir í tilkynningu félagsins.