Icelandic Group hefur selt starfsemi sína í Frakklandi og Þýskalandi til fjárfestahóp undir forystu kínverska sjávarútvegsfyrirtækisins Pacific Anders í Hong Kong samkvæmt heimildum vb.is. Icelandic er í eigu Framtakssjóðs Íslands, sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða.

Bank of America/Merril Lynch sá um söluna fyrir hönd Icelandic. Vb.is hefur ekki upplýsingar um kaupverðið sem er sagt trúnaðarmál. Um er að ræða fyrirtækin Pickenpack, Hussmann & Hahn Seafood og Pickenpack Gelmer í Þýskalandi og Frakklandi.

Velta 300 milljónum evra

Talið er að fjárfestingin nemi á bilinu 70 til 100 milljóna evra samkvæmt vefmiðlinum IntraFish. Velta Pickenpack og Pickenpack Gelmer er um 300 milljónir evra, af um 997 milljóna evra veltu Icelandic Group. Í frétt IntraFish 26. apríl síðastliðinn kom fram að tap hefur verið af rekstri í Frakklandi á síðustu árum. Tapið nemi alls um 60 milljónum evra frá því að Icelandic keypti félagið en það myndi kosta um 40 milljónir evra að loka verksmiðjunni, samkvæmt heimildarmanni IntraFish.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er stærsti eigandi Icelandic Group eins og áður segir. Sjóðurinn ákvað að selja Icelandic Group í hlutum, eftir að viðræðum var slitið við fjárfestingasjóðinn Triton. Næst mun starfsemi Icelandic í Kína og Bandaríkjunum fara í söluferli.