Til stendur að skrá Icelandair Group innan tíðar í Kauphöll Íslands. Félagið verður eitt af stærstu félögunum í Kauphöllinni með tilliti til veltu og starfsmannafjölda. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, frá undirbúningi skráningar og framtíðarsýn félagsins.

Jón Karl segir að um leið og verið væri að búa til alveg nýtt fyrirtæki á gömlum grunni væri í raun um leið verið að rifja upp söguna. Starfsemin og eignirnar voru undir hatti Flugleiða í eina tíð og eftir að nafninu var breytt undir hatti FL Group. Síðan breyttust áherslur FL Group mikið og flugreksturinn sem áður var meginviðfangsefni Flugleiða var orðinn lítill hluti af starfseminni hjá FL Group. Með stofnun Icelandair Group er aftur orðin til samstæða með fókusinn á flug og ferðaþjónustu og tengd viðskipti. Jón Karl sagðist geta fullyrt að þarna verði til mjög öflugt félag með mjög sterka eignastöðu í flugvélum og fasteignum. Að baki Icelandair Group standa mörg félög í nokkuð dreifðum rekstri en langstærst þeirra er áætlunarfélagið Icelandair með um 30 milljarða króna veltu.

Ítarlegt viðtal er við Jón Karl í Viðskiptablaðinu í dag.