Fjárfestingabanki Evrópu (EIB) lokaði á lán til Landsvirkjunar í júlí sl., sem átti að veita til framkvæmda við Búðarhálsvirkjun vegna þess að ekki hefur enn fengist botn í Icesavedeilu Íslands, Hollendinga og Breta.

Upplýsingum þess efnis var komið til íslenskra stjórnvalda og Landsvirkjunar, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Stjórn EIB, sem er í eigu ríkja Evrópusambandsins (ESB), var ekki einhuga um ákvörðunina á stjórnarfundi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en svo fór að lokum að ekki var veitt heimild fyrir því að lána til Landsvirkjunar.

Í yfirstjórn bankans (Board of Governance) eru fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna. Þar á meðal eru George Osborn, fjármálaráðherra Bretlands, og Jan Cornelis De Jager, fjármálaráðherra Hollands, sem hafa haft samskipti við íslensk stjórnvöld vegna Icesave-deilunnar á sinni könnu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .