Breskir ráða- og embættismenn fagna nú samkomulagi í deilu Íslendinga og Breta um Icesave skuldbindingarnar en sem kunnugt er náðu ríkin samkomulagi um helgina sem felur í sér að íslenska ríkið, í gegnum Tryggingasjóð innistæðueigenda, ábyrgist um 640 milljarða króna greiðslu vegna Icesave reikninganna.

Samkomulagið er þó gert með fyrirvara um samþykki Alþingis en talið er að stór hluti, allt að 95% eigna Landsbankans í Bretlandi komi til með að ganga upp í greiðslur vegna málsins en rétt er þó að setja fyrirvara á slíkar tölur þar sem enn á eftir að koma þeim eignum í verð.

Í frétt BBC af málinu er haft eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins að samningurinn væri liður í því að bæta samskipti þjóðanna, Bretlands og Íslands.

„Þetta eru góðar fréttir fyrir breska skattgreiðendur og eins fyrir Íslendinga,“ hefur BBC eftir talsmanninum.

„[Breska] Ríkisstjórnin fagnar því að Ísland skuli viðurkenna ábyrgð sína gagnvart reglum um ábyrgð innistæðueigenda  og ætli nú að endurgreiða viðskiptavinum Icesave.

Í frétt Financial Times (FT) af málinu kemur fram að samkomulagið sé liður í því að endurreisa traust á íslenska bankakerfið. Þá hefur blaðið eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra að samkomulagið sé liður í því að auka trúverðugleika og traust alþjóðlega samfélagsins á Íslandi.

Þá kemur einnig fram í frétt FT að breska ríkisstjórnin hafi s.l. haus, eftir samtal fjármálaráðherra ríkjanna tveggja, fryst allar eigur íslenskra banka í Bretlandi með ákvæðum hryðjuverkalaga sem hafi síðan leitt til falls stærsta banka Íslands, Kaupþing og vakið upp mikla reiði hér á landi.

Breska ríkisstjórnin ákvað í lok síðasta árs að endurgreiða um 200 þúsund viðskiptavinum Landsbankans sem áttu innistæður á Icesave reikningunum en hafa þó allan tímann krafist þess að íslensk stjórnvöld ábyrgist allt að 21 þúsund evrur, sem er að mati Breta samkvæmt EES skilmálum.

Þá kemur jafnframt fram í frétt FT að samkomulagið auðveldi samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem enn hefur ekki greitt annan hluta (af átta) af 2,3 milljarða dala láni sjóðsins til Íslands.

Í frétt breska blaðsins The Daily Telegraph er fjallað um málið á svipuðum nótum, þ.e. að Bretar hafi fryst eignir íslenskra banka þar sem stjórnvöld hafi óttast að íslensk yfirvöld myndu ekki viðurkenna ábyrgð sína á Icesave.

Nú sé hins vegar komin lausn í málið og blaðið hefur eftir ónefndum embættismönnum að fagna beri samkomulaginu. Einn þeirra segir að mikilvægt hafi verið að samkomulag næðist til að bæta samskipti ríkjanna. Annar orðar það þó aðeins öðruvísi og fagnar því að íslensk stjórnvöld hafi „loksins viðurkennt ábyrgð sína“ eins og hann orðar það.