Icelandair og bandaríska flugfélagið Frontier Airlines kynntu í dag nýtt samstarf flugfélaganna sem meðal annars felur í sér sölu og farseðlaútgáfu á flugleiðum hvors annars. Viðskiptavinir Icelandair geta nú keypt einn farseðil frá Íslandi til þeirra tuga bandarísku borga sem Frontier flýgur til og jafnframt geta viðskiptavinir Frontier keypt miða til Íslands og Evrópulanda með flugi Icelandair.

Samkomulagið tengist flugi Icelandair til Denver, sem hefst í maí á næsta ári, en Denverflugvöllur er helsta miðstöð Frontier. Félagið býður daglega upp á 500 flug til 80 áfangastaða í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada út frá Denver og öðrum helstu miðstöðum sínum, sem eru borgirnar Milwaukee og Kansas City.

„Þessi samningur styrkir starfsemi og eykur þjónustu Icelandair í Bandaríkjunum og ekki síst á þessum nýja og spennandi áfangastað, Denver í Colorado", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningu frá félaginu. "Denverflugvöllur er fimmti stærsti flugvöllur í Bandaríkjunum og þaðan er auðvelt að komast til fjölmargra staða í mið- og vesturhluta landsins". "Við höfum nú á stuttum tíma gert nokkra mikilvæga samstarfssamninga við flugfélög beggja vegna Atlantshafsins þ.e. við Finnair, SAS, Alaska Airlines,JetBlue og nú við Frontier. Þessir samningar eru í samræmi við þá stefnu okkar að tryggja sjálfstæði Icelandair og sérstöðu í alþjóðafluginu, en um leið að opna fyrir samskiptaleiðir og samstarf við önnur flugfélög", segir Birkir Hólm Guðnason. Icelandair flýgur frá Keflavíkurflugvelli til borganna Boston, New York, Seattle, Washington Minneapolis, Orlando, Toronto og Halifax í Norður-Ameríku og í vor hefst áætlunarflug til Denver. Þá flýgur Icelandair til yfir 20 Evrópuborga.