Flest bendir til að framboð á 4. ársfjórðungi verði minna en á 2. og 3. ársfjórðungi þrátt fyrir fyrirhugaða sölu Lánasýslu ríkisins á íbúðabréfum. Ástæða þess liggur í að Lánasýsla ríkisins stærsti útgefandi á markaði, mun að öllum líkindum hætta eða draga verulega úr útgáfu ríkisbréfa á 4. ársfjórðungi.

Þetta kemur fram í skuldabréfaskýrslu IFS Greiningar.

IFS segir að á móti komi að ekki séu sömu tækifæri og á 2. ársfjórðungi þar sem verð skuldabréfa sé orðið töluvert hærra en þá.

„Markaðsaðilar eru nokkuð svartsýnir á lækkun stýrivaxta sem mun setja skorður á lækkun ávöxtunarkröfunnar á 4. Ársfjórðungi,“ segir í skýrslu IFS.

„Þannig má ekki búast við jafn hraðri og mikilli lækkun á kröfu nú og á 2. ársfjórðungi er fjárfestar færðu sig af bankareikningum yfir á skuldabréfamarkað.“

Þá gerir IFS ráð fyrir að eftirspurn umfram framboð á skuldabréfamarkaði nemi um 23 milljörðum á 4. ársfjórðungi.