*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Erlent 25. október 2021 09:57

Í­hluta­skortur bítur í fram­leiðslu Renault

Renault mun framleiða um hálfa milljón færri bifreiðar í ár vegna skorts á örgjörvum.

Ritstjórn
epa

Franski bílaframleiðandinn Renault mun draga úr framleiðslu sinni um 500 þúsund bifreiðar í ár vegna skorts á örgjörvum. Ástandið mun því hafa meira en tvöfalt meiri áhrif á afkastagetuna en fyrirtækið hafði spáð fyrir um í september. Reuters greinir frá.

Renault framleiddi alls 3,75 milljónir bíla árið 2019 og því eru áhrifin sem nemur 13% af framleiðslugetu bílaframleiðandans í eðlilegu árferði.

Fjármálastjóri Renault, Clotilde Delbos, sagði í kynningu til greiningaraðila á föstudaginn að áhrif örgjörvaskortsins á framleiðsluna á fjórða ársfjórðungi væru enn mjög óljós þar sem upplýsingarnar sem berast frá birgjum væru „mjög óáreiðanleg“.

Delbos gerir ráð fyrir að ástandið skáni fyrir árslok þegar útgöngubanni í Malasíu, þar sem stór hluti örgjörvaframleiðslu heims fer fram, verður aflétt. Hins vegar verði framboðsvandinn líklega viðvarandi út næsta ár.

Velta fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 13,4% á milli ára og nam nærri 9 milljörðum evra en hærri verð drógu úr áhrifum 22,3% samdráttar í sölu.

Stikkorð: Renault örgjörvar