*

mánudagur, 22. júlí 2019
Erlent 26. febrúar 2018 18:02

Íhuga sölu á óbyggðum höfuðstöðvum

Goldman Sachs íhugar sölu á nýjum höfuðstöðvum sínum en söluverðið gæti numið um 141 milljarði.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Fjárfestingabankinn Goldman Sachs er nú sagður íhuga sölu á nýju evrópsku höfuðstöðvum sínum í London fyrir um 1,4 milljarða dollara sem nemur ríflega 141 milljarði íslenskra króna. Ef af sölunni verður stefnir Goldman þó á að endurleigja bygginguna að því er Bloomberg greinir frá.

Höfuðstöðvarnar eru þó enn í byggingu en bankinn stefnir á að flytja inn í nýju bygginguna í byrjun næsta árs.

Höfuðstöðvarnar munu verða 78.000 fermetrar að stærð og er ætlað að hýsa 9.600 starfsmenn. Í færslu á Twitter í október sagði Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman að bankinn væri enn að „vænta/vonast til þess að ná að fylla bygginguna en svo margt væri ekki í hans höndum #brexit.“

Virði byggingarinnar veltur að miklu leyti á því hvaða leigu bankinn er tilbúinn að greiða. Ef bankinn greiðir markaðsverð sem er um 70 pund á ferfetið á ári mun han greiða það sem samsvarar tæplega 8,3 milljörðum króna á ári í leigu.