IKEA Group og IKEA Foundation verja samtals einum milljarði evra, eða um 150 milljörðum króna, til aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Fram kemur í tilkynningu að IKEA Group leggur til 600 milljónir evra og IKEA Foundation, góðgerðastofnun innan IKEA samsteypunnar, 400 milljónir, og fénu verður varið til aðstoðar á viðkvæmum svæðum þar sem skaðleg áhrif vegna loftslagsbreytinga eru mest og til að flýta fyrir minnkun skaðlegs útblásturs á heimsvísu með eflingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Sex hundruð milljóna evru framlag IKEA Group til eflingar endurnýjanlegrar orku er til viðbótar við samtals 1,5 milljarðs fjárfestingu í vind- og sólarorku frá árinu 2009. Fyrirtækið er vel á veg komið í að verða sjálfbært þegar orkunotkun er annars vegar, þ.e. að framleiða jafnmikla orku og það notar í rekstri IKEA verslana um allan heim. Það starfrækir nú 314 vindtúrbínur og hefur sett upp 700 þúsund sólarrafhlöður. Meirihluti framlagsins, eða 500 milljónir evra, verður nýttur til fjárfestinga í vindorku og 100 milljónir í sólarorku.

Fjögur hundruð milljónir frá IKEA Foundation verða nýttar á næstu fimm árum til að styðja fjölskyldur og samfélög á fátækum og viðkvæmum svæðum þar sem hætta er á til dæmis flóðum og þurrkum. Framlög frá IKEA Foundation undanfarin fimm ár hafa bætt lífsskilyrði yfir 178 milljóna barna og fjölskyldna þeirra í 46 löndum. Fjármunirnir sem hér um ræðir munu hjálpa mörgum af fátækustu samfélögum heims að veita breytingum vegna loftslagsbreytinga viðnám og bæta líf íbúanna með því að gefa heimilum, skólum og fyrirtækjum færi á að nýta endurnýjanlega orkugjafa.