Í Silfri Egils í dag sagði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að það væri alveg ljóst að ríkisstjórninni hefði ekki tekist vel upp með að samþætta ríkisfjármálastefnu annars vegar og peningamálastefnu hins vegar.

„Það sem ég hef haft áhyggjur af er að við höfum verið að sigla inn í þessa stefnu, með þá peningamálapólitík sem Seðlabankinn hefur rekið, sem byggist á því að hækka vexti, vegna þess að húsnæðisliðurinn var að hækka sem hækkaði vegna þess að það varð breyting á hvernig við fjármögnuðum húsnæði í landinu“ sagði Illugi.

Illugi benti á að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega og að Seðlabankinn hafi ákveðið að taka þá hækkun með inn í verðbólgumælingu sína, sem hafi keyrt upp vextina. Á sama tíma hafi verið gríðarlegar framkvæmdir við Kárahnjúka og miklir fjármunir hafi sprautast inn í landið.

„Ef við skoðum tölurnar er gjaldeyrir sem breytt var í krónur vegna Kárahnjúkaframkvæmdanna sennilega 100-120 milljarðar á 4 ára tímabili. Bara jöklabréfaútgáfan er 800 milljarðar, þannig að menn sjá ef þeir horfa á tölurnar að peningapumpan sem búin var til var ekki bara að auka á einkaneyslu, innflutning og viðskiptahalla, hún líka prísaði krónuna út á markaðinn. Allir sem vettlingi gátu valdið sáu að þeir gátu komist fram hjá vaxtamun, með því að taka lán erlendis.

Þegar allir einstaklingar sem geta eru komnir í erlenda mynt þá þýðir það að vaxtaþunginn virkar bara á lítinn hluta af hagkerfinu. Þess vegna erum við komin í þá stöðu að við erum með 15% stýrivexti, vaxandi verðbólgu, og við horfum jafnvel fram á eitthvert atvinnuleysi á haustmánuðum. Þessi staða kallar á að gripið sé til aðgerða“ sagði Illugi.