Tvennt vekur sérstaklega athygli þegar rennt er yfir ársreikning Íbúðalánasjóðs. Fyrst ber þar að nefna verulega aukningu verðtryggingarjafnaðar sjóðsins. Í árslok 2009 var hann 15,9 milljarðar króna en jókst um 45,7 milljarða á árinu 2010 og nam í lok síðasta árs 61,6 milljörðum. Óverðtryggðar eignir sjóðsins eru því 61,6 milljörðum hærri en óverðtryggðar skuldir. Þetta er mikil aukning og er hún ekki útskýrð frekar í ársreikningum, en ætla má að sumpart skýrist hún af 33 milljarða stofnfjárframlagi því sem ríkissjóður veitti ÍLS í marsmánuði auk þess sem fasteignir til sölu eru væntanlega óverðtryggðar. Þar sem ákvörðun um framlagið var tekin í desember sl. er það þó talið sjóðnum til eigna í lok síðasta árs. Þetta framlag er í formi skuldabréfa úr skuldabréfaflokknum RÍKH18 1009 sem eru óverðtryggð bréf og því um óverðtryggða eign að ræða.

Samhliða því að verðtryggingarjöfnuður eykst mikið verður sjóðurinn næmari fyrir verðlagsbreytingum enda rýrna óverðtryggðar eignir við verðbólgu. Í skýringu um verðtryggingaráhættu kemur fram að 5% ársverðbólga muni valda 1.283 milljóna króna tapi (miðað við verðtryggingarjöfnuð í lok árs2009 hefði þetta tap verið 62,6 milljónir króna).

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blað vikunnar undir tölublöð.