Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, Dominique Strauss-Kahn, segir að þróuð ríki heims, Bandaríkin, Vestur-Evrópa og Japan, séu þegar í kreppu og að IMF kunni að lækka hagvaxtarspá sína enn frekar. „Ekki er hægt að útiloka það versta,“ hefur WSJ eftir honum.

WSJ segir að ummæli framkvæmdastjórans séu mun alvarlegri en komið hafi hingað til frá manni í veigamikilli pólitískri stöðu á alþjóðavettvangi og að þau lýsi mun meiri svartsýni en spá IMF frá 28. janúar sl.

Leiðtogar heimsins hafa forðast að nota orðið kreppa um ástandið sem ríkir nú og þegar forsætisráðherra Breta notaði það í liðinni viku sögðu aðstoðarmenn hans að hann hefði ekki ætlað að nota það orð. Tengingin við Kreppuna miklu á fjórða áratug síðustu aldar er það sem menn óttast, en þá náði atvinnuleysi 25% og framleiðslan dróst jafnvel enn meira saman en sem því nemur, að því er segir í WSJ.