Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), greindi frá því á blaðamannafundi í kvöld að sjóðurinn hefði náð samkomulagi um lánveitingu til Íslands.

Þetta kom fram í máli Strauss-Kahn á blaðamannafundi, sem haldinn var eftir leiðtogafund G20 ríkjanna í Washington, höfuðborg Bandarikjanna. Hann gat þess ekki hve há fjárhæðin væri, en líklegt má telja að þar ræði um tvo milljarða Bandaríkjadala.

„Við munum ganga frá áætlun með Íslandi í stjórninni næsta miðvikudag,“ sagði Strauss-Kahn.

Upphaflega stóð til að stjórn sjóðsins tæki fyrir lánveitinguna hinn 5. nóvember. Þá höfðu að erindrekar sjóðsins og íslensk stjórnvöld  náð samkomulagi um ráðstafanir í íslensku efnahagslífi, sem enn hefur ekki verið gert opinbert ef 19. greinin um stýrivaxtahækkun er undanskilin.

Afgreiðslu þess var hins vegar frestað að kröfu Bretlands og Hollands, sem heimtuðu að Icesave-deilan yrði leidd til lykta fyrst. Síðar lagðist Evrópusambandið á sveif með ríkjunum tveimur og rekur málið raunar fyrir þeirra hönd nú.

Yfirlýsing Strauss-Kahn hlýtur því að vera nokkuð örugg vísbending um að íslensk stjórnvöld hafi náð samkomulagi um Icesave-reikningana við ESB. Ekkert hefur hins vegar verið gert kunnugt um það, hvorki af hálfu ríkisstjórnar Íslands né ESB.