Umsókn íslenskra stjórnvalda um fjárhagslega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður tekin fyrir, hjá stjórn sjóðsins, um kl. 20.30 að íslenskum tíma í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá IMF er ráðgert að senda út tilkynningu um ákvörðun sjóðsins síðar um kvöldið.

Íslensk stjórnvöld hafa formlega sóst eftir láni frá sjóðnum að andvirði rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala. Miðað er við að lánið verði greitt út í áföngum.

Íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir láni annars staðar frá að fjárhæð 3 milljarðar Bandaríkjadala.

Samþykki stjórn IMF lán til Íslendinga þýðir það að áætlun íslenskra stjórnvalda vegna lánsins verður hrint í framkvæmd, fáist til þess stuðningur frá Alþingi.

Í áætluninni, sem undirrituð er af Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, er m.a. kveðið á samstarf Seðlabankans og IMF. Í þeim tilgangi mun bankinn m.a. taka á móti sendinefnd IMF sem gera á úttekt á áætluninni.