Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Iðnaðarráðuneytið hafa gert með sér samkomulag, sem undirritað var um helgina, um framkvæmd verkefna byggðaáætlunar 2008-2009 sem unnin verða á starfsstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði og Höfn í Hornafirði.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar undirrituðu samninginn í Klettshelli í Vestmannaeyjum á goslokahátíð á laugardaginn.

Um er að ræða eftirfarandi verkefni:

  1. Þróunarverkefni í ferðaþjónustu 100 m.kr.
  2. Verkefni unnin út frá Ísafirði 40 m.kr.
  3. Verkefni unnin út frá Höfn 20 m.kr.
  4. Verkefni í Vestmannaeyjum 20 m.kr.
  5. Önnur verkefni

Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands segir að samningurinn markar tímamót m.a. fyrir starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Vestmannaeyjum sem opnaði í júní 2008.

„Samningurinn veitir fjármagn í tvö verkefni í Vestmannaeyjum, þekkingarsetur á sviði frumgerðarsmíði (svokallaða Fab Lab – smiðju) í samvinnu við MIT háskólann og rannsókna- og þróunarverkefni um hagnýtingu á varmadælum fyrir fjarvarmaveitu Vestmannaeyja, en slíkar varmadælur gætu haft umtalsverðan orkusparnað í för með sér,“ segir í tilkynningunni.