Bandaríski bifreiðaframleiðandinn Ford tilkynnti í dag um sölu á Jagúar og Land Rover verksmiðjum fyrirtækisins í Bretlandi til indverska fyrirtækisins Tata Motors. Samkvæmt Wall Street Journal er kaupverðið 2,3 milljarðar Bandaríkjadala.

Viðræður Ford og Tata hófust í Júní í fyrra í kjölfar þess að forráðamenn fyrrnefnda fyrirtækisins tilkynntu um að Jagúar og Land Rover verksmiðjurnar yrðu seldar saman í einum pakka. Salan er hluti af endurskipulagningu bandaríska bílarisans og stefnu um aukna áherslu á kjarnastarfsemi.

Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt um hafa vinsældir Land og Range Rover bíla verið miklar undanfarin misseri en hinsvegar hefur Jagúar átt undir högg að sækja.

Tata Motors er undirfyrirtæki indverska iðnaðarrisans Tata Group og er fyrirtækið einn stærsti bifreiðaframleiðandi Indlands.Fyrirtækið kynti nýlega örbifreiðina Nano til sögunnar en miklar væntingar eru um að hún komi til með njóta mikillar hylli sökum þess hve ódýr hún er. Verðið á Nano verður um 2500 dalir. Sérfræðingar telja að með kaupunum á Land Rover og Jagúar styrkist staða Tata á alþjóðamörkuðum.

Samkomulagið felur meðal annars í sér sölusamninga á vélum Ford til Tata auk samstarfssamninga á sviði rannsókna og þróunar.