Hollenski bankinn ING telur að áhyggjur af íslensku efnahagslífi séu ofmetnar, þrátt fyrir að búast megi við niðursveiflu í bráð.

Bankinn tekur undir gagnrýni erlendra greiningaraðlila að ójafnvægi sé töluvert en bætir við að væntanlegar stýrivaxtahækkanir muni verða til þess að það takist að kæla hagkerfið.

Innlendir greiningaraðilar spá því að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti þann 30. mars til að slá á verðbólgu og ofhitnun hagkerfisins. Glitnir spáir 50 punkta hækkun í 11,25%.

Áhugi erlendra fjárfesta á íslenskum skuldabréfum hefur farið dvínandi í kjölfar neikvæðra greininga. Danske Bank sendi frá sér harðorða skýrslu á mánudaginn, sem varð til lækkunar á hlutabréfavísitölunni og veikingar krónunnar.

Lánasýsla ríkisins hafnaði öllum tilboðum í ríkisskuldabréf í gær vegna þess hve óhagstæð þau voru. Slíkt hið sama gerðist þann 22. febrúar, daginn eftir að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings breytti horfum ríkisins í neikvæðar úr stöðugum.

Standard & Poor's staðfesti nýverið lánshæfismat ríksins en tók undir gagnrýni annarra greiningaraðila á íslenska hagkerfið.