Enn ein breytingin hefur orðið á starfsmannahaldi DV eftir að Ingi Freyr Vilhjálmsson ritstjórnarfulltrúi sagði upp störfum á DV. Þetta kemur fram á Kjarnanum.

Ingi Freyr hafði starfað sem ritstjórnarfulltrúi eftir að hann flutti til Svíþjóðar árið 2013, en þar áður var hann fréttastjóri á blaðinu og skrifaði fréttir um efnahagslíf. Hann hefur einnig skrifað ýmsa skoðanapistla og leiðara þar sem hann hefur verið gagnrýninn á störf og stefnu stjórnmálaflokka, einkum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks auk nafngreindra manna í viðskiptalífinu.

Fjöldi starfsmanna hefur sagt upp á miðlinum eftir átök um eignarhald á miðlinum á seinasta ári. Margir fyrrum starfsmanna DV hafa gengist til liðs við nýja miðilinn Stundina, en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá stofnun hans þann 19. desember síðastliðinn.