Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. sem rekur nítján leik- og grunnskóla í ellefu sveitarfélögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að Ingibjörg muni starfa við hlið Margrétar Pálu Ólafsdóttur sem verði hér eftir sem hingað til starfandi stjórnarformaður félagsins og hugmyndasmiður.

Ingibjörg Ösp, sem leitt hefur Menningarhúsið Hof á Akureyri frá opnun, tekur formlega við starfinu 1. ágúst og tekur hún við af Áslaugu Huldu Jónsdóttur sem hefur verið framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar síðastliðin sjö ár. Hún er með meistarapróf í viðskiptafræði, stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum á Akureyri.

Þá var hún framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar á árunum 2003-2005 og markaðsstjóri KEA frá 2005-2008. Frá árinu 2008 hefur Ingibjörg stýrt Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, fyrst við stefnumótun og undirbúning starfseminnar fyrir hönd Akureyrarbæjar en svo sem framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Hofs sem rekið hefur húsið farsællega frá opnun. Ingibjörg er fimm barna móðir en maður hennar er Magnús Geir Þórðarson.