*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 6. nóvember 2013 15:31

Ingibjörg Pálmadóttir vill 60 milljónir frá slitastjórn

Slitastjórn Glitnis stefndi Ingibjörgu Pálmadóttir með öðrum fyrrverandi stjórnendum FL Group og Glitnis árið 2010.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Aðrir ljósmyndarar

Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður 365 miðla og kona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, krefur slitastjórn Glitnis um tugi milljóna króna í skaðabætur vegna málsóknar slitastjórnarinnar á hendur henni vorið 2010 í New York í Bandaríkjunum. Bótakrafan er talin nema á bilinu 50-60 milljónum króna og jafngildir málskostnaði Ingibjargar sem ku hafa verið mikill.

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Ingibjargar, segir í samtali við VB.is kröfuna gerða í formi búskröfu, þ.e. þrotabú Glitnis er krafið um bæturnar þar sem ekki er hægt að stefna þrotabúi. Verði krafan samþykkt fær Ingibjörg hana greidda að fullu.

Fyrsta fyrirtaka er í málinu föstudaginn 8. nóvember. Einar segir að gera megi ráð fyrir því að þar verði veittur greinargerðafrestur. 

Krafa Ingibjargar er sambærileg og fleiri einstaklinga sem slitastjórnin stefndi í málinu. Þar á meðal er Jón Ásgeir, Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og fleiri. Mál slitastjórnarinnar var höfðað vorið 2010 en dómari í New York vísaði því frá þar sem hann taldi það ekki heyra undir dóminn.