Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður 365 miðla og kona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, krefur slitastjórn Glitnis um tugi milljóna króna í skaðabætur vegna málsóknar slitastjórnarinnar á hendur henni vorið 2010 í New York í Bandaríkjunum. Bótakrafan er talin nema á bilinu 50-60 milljónum króna og jafngildir málskostnaði Ingibjargar sem ku hafa verið mikill.

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Ingibjargar, segir í samtali við VB.is kröfuna gerða í formi búskröfu, þ.e. þrotabú Glitnis er krafið um bæturnar þar sem ekki er hægt að stefna þrotabúi. Verði krafan samþykkt fær Ingibjörg hana greidda að fullu.

Fyrsta fyrirtaka er í málinu föstudaginn 8. nóvember. Einar segir að gera megi ráð fyrir því að þar verði veittur greinargerðafrestur.

Krafa Ingibjargar er sambærileg og fleiri einstaklinga sem slitastjórnin stefndi í málinu. Þar á meðal er Jón Ásgeir, Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og fleiri. Mál slitastjórnarinnar var höfðað vorið 2010 en dómari í New York vísaði því frá þar sem hann taldi það ekki heyra undir dóminn.