Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra vill leggja sitt af mörkum til að auka hlut Alþingis, utanríkismálanefndar og annarra nefna, á ákvörðunum sem varða ESB og EFTA. Telur ráðherra líklegt að aukinn áhugi þingheims á þessum málefnum muni leiða til breytinga á verklagi Alþingis á næstunni. „Ljóst er að áhugi á að efla þennan þátt í starfi Alþingis hefur aukist,” segir í skýrslu ráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu, sem Ingibjörg Sólrún kynnti á Alþingi í gær. „Þetta er enn brýnna við nýjar aðstæður eftir að ljóst varð að endurskoðunarsáttmáli ESB mun færa Evrópuþinginu og þjóðþingum aðildarríkjanna aukna hlutdeild í löggjafarferli ESB, og þar með í löggjöf sem varðar innri markaðinn og Ísland er skuldbundið til að innleiða."

Hægt að hafa áhrif á þróun

Ingibjörg Sólrún segir að formleg aðkoma íslenskra stjórnvalda að EES-málum innan Evrópusambandsins takmarkist við fyrst stig tillagna frá framkvæmdastjórn þess. „Reynslan hefur sýnt að unnt er að hafa áhrif á þróun mála innan sambandsins á þessu stigi þegar rétt er á málum haldið nógu snemma,” segir Ingibjörg. „Mikilvæg forsenda slíkrar málafylgju er að Alþingi og kjörnir fulltrúar hafi vakandi auga á málefnum innri markaðarins mun fyrr í stefnumótunar- og löggjafarferlinu en hingað til hefur tíðkast.”

Ráðherra segir að undanfarið hafi verið unnið að því að treysta tengslin við embættismenn Evrópusambandsins og ríkja þess. Einnig hafi ráðherra ríkisstjórnarinnar lagt áherslu á að eiga fundi með framkvæmdastjórnum ESB og á nokkurra mánaða tímabili sé búið að heimsækja tæplega helming þeirra. Hafi fundarhöldin m.a. leitt til boða um að íslenskir embættismenn starfi á skrifstofum framkvæmdastjóranna og boð um þátttöku íslenskra stjórnvalda í starfshópum á tilteknum málasviðum.