Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um heimild til hópmálsóknar. Lagt er til að lögin, verði þau samþykkt, öðlist gildi 1. júlí 2009. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Í frumvarpinu er lögð til heimild til handa hópi aðila, bæði einstaklinga og lögaðila, til þess að höfða sameiginlega dómsmál til kröfu um bætur vegna tjóns eða lögbrota. „Með því að innleiða sérstaklega úrræði um hópmálsókn er orðið til viðurkennt úrræði fyrir hóp manna sem eiga einsleitar kröfur til þess að leita einkaréttarlegra úrræða og bóta vegna tjóns eða brots sem viðkomandi aðilar hafa orðið fyrir," segir í greinargerð frumvarpsins.

Þar segir enn fremur að heimild til hópmálsókna geti falið í sér gríðarlega þjóðfélagslega hagkvæmni. „Þetta leiðir til hagræðis bæði í kerfinu þar sem minni tími fer í málarekstur og undirbúning og fyrir þátttakendur í málsókn er sparnaðurinn augljós af því að deila kostnaði við mál með mörgum öðrum sem eiga sömu hagsmuna að gæta," segir enn fremur í greinargerðinni.

Þá er bent á að öll nágrannalöndin hafi innleitt heimild til hópmálsóknar.

Frumvarpið í heild má finna hér.