Að sögn Lofts Ágústssonar, markaðsstjóra hjá Ingvari Helgasyni hf., er fyrirtækið enn að bjóða bíla á lækkuðu verði en félagið hefur selt nýja eftirársbíla á tilboðskjörum síðan í maímánuði. Að sögn Lofts hafa viðbrögðin verið góð og ríflega 600 bílar selst.

Loftur sagði að lítið væri eftir af bílum en nokkuð þó til af Nissan Patrol og Subaru bílum. Afsláttur er mismunandi milli gerða og tegunda. Í sumum tilfellum lætur nærri að verð bílanna sem lækka verði eins og þau voru áður en efnahagshrunið skall á. ,,Viðtökur hafa verið framúrskarandi og við munum halda áfram að selja þá bíla sem eftir eru. Við verðum líklega eitthvað fram á næsta vetur að selja þann lager sem við eigum.

Sem dæmi um verð má nefna að Nissan Patrol kostar 6,3 milljónir á tilboði en 8,5 milljónir ella.