Tíu fruminnherjar keyptu hlutabréf í Actavis fyrir viku, fyrir 2.565 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.

Mest keypti Aceway Ltd., félag í eigu Róberts Wessmans forstjóra, eða fyrir 753 milljónir að markaðsvirði. Viðskiptin fóru fram á genginu 57,5, en síðasta viðskiptaverð með bréf félagsins var 60,60.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands sagði:

?Ofangreindir fruminnherjar hafa í dag keypt hlutabréf í Actavis Group á genginu 57,5 eins og nánar er tilgreint hér að ofan. Þá hafa innherjarnir gert samning við Actavis Group hf. um sölurétt, sem hefur verið framseldur Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf. Sölurétturinn gildir til 1. ágúst 2008 og tryggir ofangreinda aðila gegn tapi af viðskiptunum og nær til allra þeirra hluta sem keyptir eru í dag. Til viðbótar nær söluréttur Aceway ltd. einnig til hluta að nafnvirði kr. 16.893.171. Einnig hafa innherjarnir gert samning við Actavis Group um að félagið eigi kauprétt á þeim hlutum sem hér um ræðir á sömu kjörum og sölurétturinn kveður á um. Fyrstu 12 mánuðina frá kaupum á Actavis Group hf. kauprétt á öllum þeim hlutum sem um ræðir en eftir að 12 mánuðir eru liðnir frá kaupunum og fram til 1. ágúst 2008 á Actavis Group hf. kauprétt að hluta þeirra hluta sem hér um ræðir.?

Í morgun var sem kunnugt er tilkynnt um að Actavis Group hefði sent stjórnendum króatíska semheitalyfjafyrirtækisins PLIVA óformlegt tilboð um kaup á öllu hlutafé félagsins, en markaðsvirði þess að teknu tilliti til yfirverðs er 110 milljarðar króna.