Ráðstefnan ber yfirskriftina "Leiðir til árangurs" og verður tekið á margvíslegum málefnum er snerta opinber innkaup s.s. greiningu og skipulagi innkaupa, verkefnastjórnun, útvistun, einkaframkvæmdum og nýsköpunarkaupum. Þá verður nýtt rafrænt markaðstorg kynnt.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra setur ráðstefnuna og sendir fyrstu formlegu pöntun á rafræna markaðstorginu.

Aðalræðumaður ráðstefnunnar að þessu sinni er Bettina Jensen, forstöðumaður þjónustu- og rekstrarsviðs Danmarks Radio. Hún mun fjalla um skipulag innkaupa hjá DR og þann árangur sem þar hefur náðst fram með greiningarvinnu, stefnumótun og ferlum, ásamt því að ræða framtíðarsýn DR í innkaupum. Erindið ber titilinn "Procurement in Danish Broadcasting Corporation - analysis, policy, processes and the future" og er flutt á ensku.

Bettina hefur haft umsjón með innkaupum DR frá árinu 2001 þegar hún hóf það verkefni að umbylta öllum innkaupum DR. Verkefnið hófst á umfangsmikilli greiningu allra innkaupa til að fá yfirsýn yfir umfangið og leiðir til úrbóta. Í framhaldinu voru innkaupin endurskipulögð ásamt því að sett voru fram háleit markmið um árangur.

Á fjórum árum náðu þau fram sparnaði sem nemur um 100 milljónum DKR og sáu fram á að tvöfalda þá upphæð fram til ársins í ár. Þess má geta að Bettina var kosinn kosin innkaupamaður ársins í Danmörku í kjölfar þessa verkefnis.

Aðrir ræðumenn á ráðstefnunni eru:

Gunnar H. Hall, fjársýslustjóri fjallar um greiðslumiðlun og rafrænan reikning, stöðu þessara mála á Norðurlöndunum (og jafnvel víðar) og hugleiðingar um hvað við hyggjumst gera á næstu árum í því.

Halldór B. Þorbergsson hjá Milestone með fyrirlestur um útvistun og einkaframkvæmdir.

Dr. Helgi Þór Ingason, dósent hjá Háskóla Íslands með fyrirlestur um verkefnastjórnun og helstu lykilþætti í aðferðafræði hennar.