Innlendir aðilar áttu 922 milljarða króna í erlendum verðbréfum í lok síðasta árs. Þetta er 125,5 milljörðum meira en í lok árs 2010. Þetta kemur fram í upplýsingariti Seðlabankans um niðurstöður könnunar um erlenda verðbréfaeign innlenda aðila og landaskiptingu hennar.

Könnunin er alþjóðleg og hefur hún verið gerð að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðastliðin ellefu ár. Í þetta sinn tóku 75 lönd þátt í könnuninni.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans áttu innlendir aðilar 349,6 milljarða króna í skuldaskjölum í lok síðasta árs. Það er 117,2 milljörðum króna en í lok árs 2010. Í ritinu segir að þetta megi að miklu leyti rekja til fjárfestingar þrotabúa gömlu bankanna sem juku eignir sínar í skuldaskjölum um 79,2 milljarða króna á milli áranna.

Þá dróst verðbréfaeign innlendra aðila í Lúxemborg saman þriðja árið í röð og er hún komin niður í 99,8 milljarða króna. Það er um þriðjungur af verðmæti eignarinnar árið 2008.

Þá segir í ritinu að lífeyrissjóðir eru enn stærstu fjárfestarnir þrátt fyrir mikinn vöxt í erlendum eignum innlánsstofnana og innlánsstofnana í slitameðferð. Bandaríkjadalur er enn stærsti útgáfugjaldmiðill erlendra verðbréfa og flest erlend verðbréf í eigu innlendra aðila eru gefin út í Bandaríkjunum.

Upplýsingarit Seðlabankans