Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur neitað að útvega íranska landsliðinu í knattspyrnu legghlífar á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu vegna milliríkjadeilna Bandaríkjanna og Írans. CNBC greinir frá .

Forsvarsmenn Nike segja ástæðuna vera yfirvofandi endurupptaka viðskiptaþvingana á Íran af hálfu Bandaríkjanna, en Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran í síðasta mánuði.

Íran státar af besta knattspyrnuliði karla í Knattspyrnusambandi Asíu samkvæmt styrkleikalista FIFA. Liðið hefur hins vegar átt erfitt með að landa styrktarsamningum við íþróttavöruframleiðendur í gegnum árin vegna alþjóðlegra viðskiptaþvingana.

Um 60% af leikmönnum HM í ár verða með legghlífar frá Nike. Keppinauturinn Adidas skaffar hins vegar 12 af 32 landsliðsbúningum keppninnar í ár.

Blásið verður til leiks á HM eftir fjóra daga. Fyrsti leikur Íran verður gegn Marokkó á föstudaginn.