Stjórnvöld í Íran og Venesúela hyggjast koma á fót sameiginlegum banka til að fjármagna þróunarverkefni landanna. Höfuðstöðvar bankans verða í Teheran og mun hann hafa yfir að ráða 1,2 milljörðum Bandaríkjadala til að byrja með.

Bæði ríkin munu leggja til um helming upphæðarinnar. Þjóðirnar hafa með sér náin samskipti á mörgum sviðum: Frá því árið 2001 hafa ríkin ráðist í meira en 200 samstarfsverkefni að andvirði um 20 milljarða dala.

Mikil vinátta ríkir einnig á milli Hugo Chávez, forseta Venesúela, og Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseta.

Í heimsókn sinni til Teheran á síðasta ári sýndi Chávez vinarvott sinn með því að gefa Ahmadinejad Airbus A340-200 þotu.