Írska ríkisstjórnin reynir nú hvað hún getur að semja við stéttarfélög opinberra starfsmanna um launalækkanir til að ná fram sparnaði á fjárlögum landsins.

Náist samningar mun ríkisstjórnin að öllum líkindum þurfa að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um fyrirgreiðslu.

Þetta staðfesti Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands í samtali við Financial Times (FT) í dag en vildi ekki greina nánar frá þeim viðræðum sem hefðu átt sér stað milli ríkisstjórnarinnar og stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Í minnisbréfi sem Dan Murphy, formaður stéttarfélags opinberra starfsmanna á Írlandi (sem samsvarar til BSRB hér á landi) sendi forystumönnum annarra stéttarfélaga innan hins opinbera geira kemur fram að ríkisstjórnin muni þurfa að leita til IMF ef ekki tækist að semja um launalækkanir. Í kjölfarið myndi IMF gera kröfu um verulegar uppsagnir hjá hinu opinbera.

Gert er ráð fyrir að skuldir írska ríkisins verði um 6,5% af landsframleiðslu í lok þessa árs sem er tvöfalt yfir þeim mörkum sem Evrópusambandið hefur sett ríkjum sambandsins.

Þá hefur FT eftir talsmanni IMF að írsk yfirvöld hafi ekki enn leitað til sjóðsins og um þessar mundir væri ekkert sem benti til þess að Írland myndi þurfa aðstoð sjóðsins.

Írland, sem er eins og áður kom fram hluti af Evrópusambandinu og fyrst ríkja innan sambandsins til að vera formlega í samdrætti, hefur komið illa út úr þeirri alþjóðlegu fjármálakrísu sem nú gengur yfir. Sem dæmi má nefna að  skatttekjur írska ríkisins drógust saman um 14% á síðasta ári.

Brian Lenihan, fjármálaráðherra Írlands sagði við fjölmiðla í síðustu viku að ekki stæði til að hækka skatta en sagði hins vegar að taka þyrfti verulega á opinberum útgjöldum, þá sértaklega launakostnaði.

Í september síðastliðnum náðu ríkisstjórnin og stéttarfélög opinberra starfsmanna samkomulagi um 11 mánaða launafrystingu en það samkomulag fól hins vegar í sér að opinberir starfsmenn fengju að meðaltali um 6% launahækkun næstu 21 mánuði.