Einhverjir foreldrar voru ósáttir í gær við skilaboð frá skólum borgarinnar. Sumir foreldrar sögðust engar fréttir hafa fengið af opnun eða lokun skóla fyrr en klukkan hálftíu í gærmorgun. Þá komu boð um að fólk ætti að halda sig heima og fara hvergi. En þá voru flestir lagðir af stað og búnir að festa sig í sköflum víðs vegar um borgina.

Síðar um morguninn komu boð til foreldra, sem sumir hverjir sátu enn fastir, að það ætti alls ekki að sækja börnin en samt að sækja þau á eftir eða jafnvel bara sækja þau strax.

Það er ekki nema von að einhverrar ringulreiðar hafi gætt en samgönguráð Reykjavíkurborgar, sem sér um allar samgöngur í borginni, var veðurteppt í Borgartúninu í gær samkvæmt facebook-stöðu Hildar Sverrisdóttur varaborgarfulltrúa: „Íronía dagsins: að vera veðurteppt á fundi samgönguráðs Reykjavíkurborgar."