Viktor Kristmannsson fimleikamaður úr Gerplu og  Fríða Rún Einarsdsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2007 á íþróttahátíð Kópavogs sem fram fór í Salnum 6. janúar

Viktor stóð sig frábærlega á liðnu tímabili. Hér heima varð hann sex faldur íslandsmeistari í áhaldafimleikum auk þess að verða bikarmeistari með félagi sínu Gerplu. Á alþjóðlegum vettvangi sigraði Viktor í fjölþraut á Smáþjóðaleikunum og varð í 3. sæti í gólfæfingum á Norðurevrópumeistarmótinu í fimleikum. Auk þess tók hann þátt í tveimur af stærstu fimleikamótum ársins á heimsvísu. Hann hafnaði í 47. sæti á Evrópumeistarmótinu í Hollandi og í 108. sæti á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi.

Fríða Rún Einarsdóttir er efnilegasta fimleikakona norðurlanda. Hún náði þeim einstaka árangri á árinu að sigra í öllum greinum á Norðurlandamóti unglinga sem fram fór í Danmörku á liðnu ári auk þess að verða norðurlandameistari í liðakeppni. Jafnframt  sigraði Fríða Rún í fjölþraut á Smáþjóðaleikunum, komst í fjölþrautarúrslit á Ólympíuleikum æskunar og náði góðum árangri á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi þar sem hún hafnaði í 90. sæti.  Hún var skamt frá því að vinna sér þar inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og eru vonir bundnar við að hún nái því markmiði síðar.

Sem íþróttakarl og íþróttakona fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar vegna kjörsins jafnframt því sem  Gunnsteinn Sigurðsson formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Kópavogs afhenti þeim 200 þús. kr ávísun til viðurkenningar frá bæjarstjórn Kópavogs.

Viktor og Fríða Rún voru  valin úr hópi  35 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu ÍTK eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Flokkur17 ára og eldri:

Arna Sif Pálsdóttir handknattleikur, Arnar Sigurðsson tennis, Gunnleifur V. Gunnleifsson knattspyrna, Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir hópfimleikar, Ingibjörg Gunnarsdóttir blak, Karen Sturludóttir knattspyrna, Kári Steinn Karlsson, frjálsar íþróttir, Ottó Sigurðsson golf, Sigurbjörg Ólafsdóttir frjálsar íþróttir og Viktor Kristmannsson áhaldafimleikar.

Flokkur 13 til 16 ára:

Rúna Halldórsdóttir hestaíþróttir, Kristján Viktor Kristinsson og Stefanía Valdimarsdóttir frjálsar íþróttir, Berglind Þorvaldsdóttir, Finnur Orri Margeirsson,  Hafsteinn Briem og Guðrún Hermannsdóttir knattspyrna, Pálmar Gíslason og Hildur Sigrún Guðbrandsdóttir skíði, Sigrún Helga Davíðsdóttir og Ragnar Björnsson sund, Arnar Freyr Nikulásson og Svana Katla Þorsteinsdóttir karate, Arna Dýrfjörð og Leó Snær Pétursson handknattleikur, Birkir Gunnarsson og Arney Rún Jóhannesdóttir tennis, Ólafur Garðar Gunnarsson og Fríða Rún Einarsdóttir fimleikar, Ari Magnússon og Eygló Myrra Óskarsdóttir golf, Bryndís Þorsteinsdóttir, hjólreiðar, Orri Þór Jónsson og Steinun Helga Björgólfsdóttir blak og  Arnar Pétursson, körfubolti.

Flokkur Ársins var kjörinn P-1 meistaraflokks hópur Gerplu í hópfimleikum, en flokkurinn varð norðurlandameistari á árinu.

Íþrótta- og tómstundaráð Kópavogs (ÍTK) afhenti á hátíðinni einnig A-styrki úr Afrekssjóði ÍTK og veitti viðurkenningar fyrir unnin afrek á árinu 2007