Leikskólagjöld lækka um 5% og sorpgjöld um 10% hjá Ísafjarðarbæ miðað við drög að fjárhagsáætlun bæjarins sem var lögð fram í dag. Gert er ráð fyrir því að framlegð bæjarins, fyrir vexti, afskriftir og lífeyrisskuldbindingar verði um 500 milljónir króna sem er um 100 milljónum meira en útkomuspá þessa árs gerir ráð fyrir og um 300 m.kr. meira en árið 2011.

Gert er ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 765 milljónir á næsta ári. Helstu verkefni eru bygging hjúkrunarheimilis en áætlaður framkvæmdakostnaður á næsta ári er 350 milljónir. Framkvæmdir við ofanflóðavarnir eru áætlaðar 180 milljónir og gert er ráð fyrir að endurbyggja og malbika Heiðarbraut og Dalbraut í Hnífsdal.