Heilsölusamstæðan Íslensk ameríska (ÍSAM) var rekin með 741 milljón króna tapi á síðasta ári. Taprekstur félagsins jókst frá árinu 2018 en þá nam tapið 506 milljónum króna. Þá var 301 milljóna tap hjá félaginu árið 2017 en hagnaður upp á 262 milljónir króna árið 2016. Samanlagt tap síðustu þriggja ára nemur því ríflega 1,5 milljörðum króna.

Rekstrartekjur ÍSAM jukust úr 12,6 milljörðum króna í 13,2 milljarða króna milli ára. Þá snerist rekstrarafkoma fyrir afskriftir (EBITDA) úr 155 milljóna tapi í 322 milljóna hagnað. Hins vegar jukust afskriftir úr 271 milljón króna í 725 milljónir króna. Rekstrartap (EBIT) nam 403 milljónir króna árið 2019 miðað við 426 milljóna króna rekstrartap árið 2018. Þá jukust hrein fjármagnsgjöld úr 236 milljónum í 468 milljónir króna á milli ára.

Laun- og launatengd gjöld hækkuðu úr tæplega 4 milljörðum króna í ríflega 4,1 milljarð króna en meðalstöðugildi fækkaði úr 440 í 427 milli ára.

Kristinn ehf., fjárfestingafélag Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu Ísfélags keypti ÍSAM árið 2014 og er eini hluthafi félagsins. ÍSAM flutti starfsemi félagsins á Korputorg, sem einnig er í eigu Guðbjargar og tengdra aðila. Í ársreikningnum segir að kostnaður við flutningar á Korputorg og tafir á flutningunum hafi átt þátt í taprekstri félagsins.

Í ársreikningnum segir jafnframt að beiting IFRS 16 reikningsskilaaðferðir hafi orðið til þess að hagnaður fyrir skatta lækki um 86 milljónir króna á milli ára.

Eigið fé félagsins lækkar úr 1,85 milljörðum króna í 1,1 milljarð króna á milli ára. Eignir námu 17,1 milljarði króna um áramótin og skuldir 17,1 milljarði króna en þar af nemur leiguskuldbinding 8,7 milljörðum króna.

Innan ÍSAM eru meðal annars Myllan, Ora, Frón, Kexsmiðjan og Fastus. Þá flytur ÍSAM inn fjölmörg erlend vörumerki á borð við Gillette, Duracell, Nutella, Kinder, Hershey's, Ariel og BKI. Í ársreikningnum kemur fram að Fastus hafi keypt heildsöluna Healthco ehf. á 440 milljónir króna.