Samkvæmt ársreikningi Ísbúðar Vesturbæjar ehf. fyrir síðasta ár nam rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) um 34 milljónum króna og jókst um tæplega 8 milljónir frá fyrra ári. Hagnaður ársins nam rúmlega 26 milljónum króna. Elsta og þekktasta ísbúð félagsins er vafalaust sú sem er staðsett í Vesturbæ Reykjavíkur en tvær til viðbótar hafa verið opnaðar á síðustu árum. Ísbúð Vesturbæjar ehf. er að fullu í eigu félagsins Ylrækt-Heildsala ehf. Félagið er í eigu Baldurs Þórs Bjarnasonar og fjölskyldu en hann er jafnframt framkvæmdastjóri ísbúðarinnar.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Baldur Þór að mikil vinna fylgi rekstrinum og að ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár segi ef til vill ekki alla söguna. Í ársreikningi síðasta árs kemur fram að stjórn félagsins leggi til að greiddur verði arður að fjárhæð 76,0 milljónir króna á árinu 2010 vegna rekstrarársins 2009. Baldur Þór segir töluna þó eingöngu endurspegla tillögu endurskoðanda og að ekki hafi verið greiddur út arður úr félaginu. Þá sé vinnuframlag fjölskyldunnar ekki verðlagt í dag. Því megi segja að hagnaðurinn sé ofmetinn miðað við þá vinnu sem ekki er metin til fjár og því ekki í ársreikningnum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .