Ísfugl hefur fengið leyfi til að slátra kjúklingum gegn því að kjötið verði fryst og geymt. Þá fær Síld og fiskur sams konar heimild þegar yfirlýsing um frystingu liggur fyrir. Þetta er niðurstaða undanþágunefndar dýralækna, að því er segir í frétt RÚV .

Sigríður Gísladóttir, hjá Dýralæknafélagi Íslands, segir að á þeim þrjátíu dögum sem verkfall dýralækna hefur staðið hafi verið veitt heimild til slátrunar á næstum fjögur hundruð þúsund kjúklingum, þrjú þúsund kalkúnum og tvö þúsund svínum gegn því að kjötið verði geymt. Það séu yfir fjórar milljónir máltíða.

Í gær var greint frá því að um fimm hundruð grísir bíði slátrunar á svínabúi Síldar og fisks, en ekki sé hægt að slátra dýrunum. Fyrirtækið hefur ekki verið tilbúið að ganga að skilmálum undanþágunefndar Dýralæknafélags Íslands um að kjöt fari ekki á markað gegn því að fá undanþágu til slátrunar.