Hryðjuverkasamtökin ISIS gáfu út myndband nýlega þar sem talsmaður samtakanna hótaði því að gerð yrði árás á New York-borg í Bandaríkjunum. CNN segir frá.

Lögregluþjónusta New York lýsti því svo yfir að ráðstafanir væru gerðar til móts við hótanirnar, og að alríkislögreglan FBI væri að vinna með þeim að miklum öryggisstörfum.

Að sögn yfirvalda í Bandaríkjunum er myndbandið ekki nýtt, heldur endurunnið eldra myndband með nokkrum nýjum yfirlýsingum.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sagði svo í viðtali að borgarbúar létu ekki ógna sér svo auðveldlega. „Við skiljum að það er markmið hryðjuverkamanna að vekja ugg og ótta meðal fólks, til þess að valda uppnámi í lýðræðissamfélaginu okkar. Við munum ekki gera þeim svo glatt til geðs.“

Lögreglustjóri borgarinnar segir alla innan lögreglunnar vera meðvitaða um að New York sé skotmark hryðjuverka. Það undirstriki mikilvægi borgarinnar.