Ísland er sextánda dýrasta land í heimi samkvæmt lista Alþjóðabankans í skýrslu um kaupmátt, útgjöld og landsframleiðslu hagkerfa heimsins sem kom út á dögunum. Verðlag er hæst í Sviss og Noregi samkvæmt rannsókninni sem framkvæmd er á sex ára fresti. Þess má geta að við komum á eftir Danmörku (5. sæti), Svíþjóð (6. sæti) og Finnlandi (8. sæti). Rannsóknin tók til ársins 2011 en síðast var sambærileg rannsókn framkvæmd árið 2005. Löndin sem eru neðst á lista þegar búið er að leiðrétta fyrir kaupmátt eru Egyptaland, Pakistan, Myanmar, Eþíópía og Laos.

Skýrslan tekur til flestra hagkerfa heimsins eða alls 179 ríkja og skoðar landsframleiðslu og útgjöld landanna til ýmissa þátta. Þar kemur fram að helming af landsframleiðslu heimsins má rekja til svokallaðra hátekjuríkja (56 ríki) ef landsframleiðsla er metin á jafnvirðisgengi (PPP). Ef landsframleiðsla er metin á grundvelli skráðs gengis gjaldmiðla þá eiga hátekjuríkin um 67% af landsframleiðslu heimsins. Í þessum 56 ríkjum búa um 16,8% af íbúum heimsins. Nokkur breyting hefur orðið á þessu á síðustu árum en fækkað hefur í hópi ríkja sem talin eru til lágtekjuríkja á meðan fjölgað hefur í miðhópnum og hópi hátekjuríkja.

Þannig bjuggu um 11% af íbúum heimsins í lágtekjuríkjum árið 2011 en heil 35% árið 2005. Segja skýrsluhöfundar að vísbendingar séu um að jöfnuður hafi aukist á meðal hagkerfa heimsins þó svo að það þurfi að fara varlega í að draga of sterkar ályktanir í samanburði á rannsóknunum þar sem þær eru ekki að öllu leyti sambærilegar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .