Rætt verður um Ísland og endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi á fundi stjórnar sjóðsins 3. ágúst, ef marka má dagskrá stjórnar sjóðsins.

Vangaveltur hafa verið uppi um það að stjórn sjóðsins kynni að fresta fyrirhuguðum fundi sínum um Ísland í ljósi þess að Alþingi verður ekki búið að afgreiða Icesave-málið fyrir 3. ágúst.

En svo er ekki ef marka má dagskrá sjóðsins sem birt er á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er þó tekið fram að dagskráin kunni að breytast.

Önnur lánagreiðsla sjóðsins til Íslendinga verður ekki innt af hendi fyrr en að lokinni endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætluninni.