Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í dag að vísbendingar um kerfisbundna dreifingu á röngum upplýsingum um stöðuna í íslensku fjármálalífi væru grafalvarlegar og að þær yrði að leiða til lykta sem fyrst. Hann sagði enn fremur að Ísland væri ekki fyrsta landið sem lenti í klóm spákaupmanna.

Þetta kom fram í umræðum utan dagskrár um efnahagsmál. Björgvin tók undir með öðrum þingmönnum um að langbrýnasta úrlausnarefnið væri að ná íslensku krónunni í jafnvægi og draga hratt úr vaxandi verðbólgu.

Ráðherrann sagði að að vísbendingar væru um að rekja mætti mikla hækkun á skuldatryggingaálagi bankanna og snarpa lækkun á gengi íslensku krónunnar til eftirfarandi þáttar. „[Þetta] skýrist að hluta til, að minnsta kosti, af skipulagðri árás alþjóðlegra vogunarsjóða og kerfisbundnum rógburði um stöðuna í íslensku efnahagslífi," sagði hann.

Ráðherrann sagði að Fjármálaeftirlitið hefði tekið vísbendingar um þetta mjög alvarlega og hefði hafið skoðun á því í janúar. Nú hefði það tilkynnt að það yrði skoðað áfram. „Þetta eru grafalvarlegar ásakanir sem verður að leiða til lykta sem allra fyrst enda er Ísland ekki fyrsta landið sem lendir í klónum á slíkum spákaupmönnum sem geta haft gríðarleg áhrif á stöðuna," sagði hann.