Ísland er í 14. sæti á lista Wall Street Journal og Heritage hugveitunnar um efnahagslegt frelsi í heiminum og heldur sama sæti og frá því í fyrra.

Heritage mælir á ári hverju efnahagslegt frelsi 183 helstu hagkerfa heimsins en tekið er mið af reglugerðum, gjaldeyrismörkuðum, skattinnheimtu, atvinnufrelsi og svo framvegis.

Rétt er þó að taka fram að þau gögn sem hugveitan byggir á eru frá síðari hluta árs 2007 til 30. júní 2008.

Eins og fram kom í dag er mesta efnahaglega frelsið í Hong Kong, 15. árið í röð eða frá því að farið var að taka vísitöluna saman. Hong Kong fær 90 stig af 100 mögulegum.

Í öðru sæti er nágrannaríkið Singapúr, með 87,1 stig. Þá nær Ástralía þriðja sætinu í ár og ýtir Írlandi úr sessi sem aftur á móti lendir í fjórða sæti á meðan Nýja Sjáland er í fimmta sæti.

Ísland fær 75,9 stig og er, líkt og í fyrra, í 14. sæti. Þá er Ísland númer 7 af þeim 43 Evrópuríkjum sem mæld eru í vísitölu Heritage auk þess að vera nokkuð yfir meðaltali yfir heiminn allan.

Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa á íslensku hagkerfi síðustu mánuði er engu að síður athyglisvert að skoða samantektina um Ísland í heild en hana má sjá hér .

Á vef Heritage má sjá umfjöllun um frelsisvísitöluna alla, lista yfir ríkin og skýrslur um hvert og eitt þeirra auk þess sem hægt er að sjá aðferðafræðina á bakvið vísitöluna, sækja gögn til að vinna með og svo framvegis. Sjá hér.