Straumlind beindi erindi til raforkueftirlits Orkustofnunar nýverið og óskuðu eftir því að eftirlitið kannaði hvað tefji Veitur, RARIK, Norðurorku og Orkubú Vestfjarða við að senda tímamæld gögn úr snjallmælum til miðlægs gagnagrunns Netorku.

Í fréttatilkynningu um málið var vísað til þess að Straumlind hafi fyrir tæplega ári síðan byrjað að bjóða viðskiptavinum á dreifisvæði HS Veitna upp á afslátt af rafmagni á nóttunni, þar sem notast er við tímamæld gögn. Á svipuðum tíma höfðu þau samband við hinar dreifiveiturnar til að kanna áhuga þeirra á verkefninu og voru svörin jákvæð, flestir notendur ættu að geta komið inn bráðlega eða í kringum áramót. Í janúar höfðu horfur versnað og ljóst að notendur á öðrum svæðum gætu ekki komið inn strax.

Að mati Straumlindar hafa HS Veitur sýnt verkefninu mikinn áhuga en aðrar dreifiveitur virðast hálf áhugalausar um að innleiða fljótt lausnir til að fullnýta snjallmæla. Símon Einarsson, framkvæmdastjóri Straumlindar, segir ljóst að orkuþörfin og álag á dreifikerfi muni aukast.

„Það sem við getum gert strax er að nýta kerfið betur. Þá er mjög mikilvægt að allir hjálpist að og stuðli að tækniþróun og framförum en standi ekki í vegi fyrir þeim.“

„Í dag er Ísland langt á eftir Evrópu og það hefur lítið sem engin framþróun átt sér stað hjá okkur síðasta áratug og gömlu orkusalarnir eru komnir með of mikla yfirbyggingu. Það þarf að ýta hressilega við markaðinum þannig það verði einhverjar framfarir.“ segir Símon en þetta tiltekna dæmi sé aðeins eitt af mörgum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.