Eigendur Hótel Sólar, sem á og rekur nokkur hótel víðs vegar um landið, hafa keypt allt hlutafé í Islandia Hotel ehf. fyrir milligöngu Saga Capital Fjárfestingarbanka. Islandia Hotel rekur Islandia Hótel Núpar sem er staðsett í landi jarðarinnar Núpa við Lómagnúp, um miðja vegu á milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftafells.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir að Islandia Hótel Núpar sé þriggja stjörnu hótel, reist og tekið í notkun árið 2006. Hótelið hefur eingöngu verið opið yfir sumarmánuðina en það er búið 60 herbergjum með baði. Nýting hótelsins hefur verið afar góð og fyrirhugað er að stækka það um 20 herbergi. Mikil eftirspurn er eftir gistirými á þessu svæði enda stutt í margar af helstu náttúruperlum landsins. Þá eru nýir eigendur að skoða möguleika á því að reisa annað svipað hótel á Norðurlandi.

Eigendur Hótel Sólar eru Björgvin Þorsteinsson og Sverrir Hermannsson sem fyrir eiga og reka meðal annars, Hótel Akureyri, Hótel Stykkishólm, Hótel Ólafsvík, Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum og Hótel Reyðarfjörð. Fyrri eigendur fyrirtækisins Islandia Hotel eru Hjálmar Pétursson og tengdir aðilar.

Hótelstjóri Islandia Hótels Núpa er Hildur Ágústsdóttir og að jafnaði hafa starfað þar um 13 manns yfir sumarmánuðina. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsmannahaldi í tengslum við eigendaskiptin.