Íslandsbanki þarf að greiða þrotabúi Íslenskrar afþreyingar 300 milljónir króna. Héraðsdómur Reykjavíkur rifti í morgun greiðslu Rauðsólar, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á skuld þrotabúsins við bankann.

Þann 31. júlí 2008 fékk 365 hf. 305 milljónir að láni frá Glitni. Jón Ásgeir var stjórnarformaður 365 hf. og fór með ráðandi hlut í Glitni á þeim tíma. Þann 3. nóvember 2008 keypti svo Rauðsól 365 miðla út úr 365 hf. Þá var nafni 365 hf. breytt í Íslenska afþreyingu og var tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2009.

Segir í niðurstöðu dómsins að „ Af gögnum málsins verður ráðið að náin tengsl voru milli Rauðsólar ehf., 365 hf., 365 miðla ehf. og Glitnis banka hf. á árinu 2008 og vafalaust verður að telja að forsvarsmenn félaganna, þar sem einn þeirra hafði ráðandi hlut í öllum félögunum, hafi haft fulla vitneskju um fjárhagsstöðu 365 hf. -- sem síðar fékk nafnið Íslensk afþreying hf. -- er Rauðsól ehf. keypti alla hluti í 365 miðlum ehf. hinn 3. nóvember 2008.“

Ennfremur segir að ráðstöfun stjórnar Íslenskrar afþreyingar, áður 365 hf., á eignum félagsins til hagsbóta fyrir Íslandsbanka hafi ekki verið tilhlýðileg, enda bendi ekkert til annars en að forsvarsmenn Íslandsbanki hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Íslenskrar afþreyingar. Greiðsla á skuld hafi því verið ótilhlýðileg.