*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. nóvember 2004 08:52

Íslandsbanki gerir tilboð í BNbank í Noregi

Ritstjórn

Íslandsbanki hf. gerir tilboð í öll hlutabréf norska bankans BNbank (Bolig og Næringsbanken ASA). Tilboð Íslandsbanka hljóðar upp á 320 norskar krónur fyrir hvern hlut í BNbank, sem er um 19% yfir gengi bankans í norsku Kauphöllinni í lok síðasta viðskiptadags og 25% yfir meðalgengi síðastliðinna sex mánaða. Ef lögð eru saman hlutabréf sem þegar eru í eigu Íslandsbanka og vilyrði sem gefin hafa verið fyrirfram um sölu bréfa í samræmi við tilboðið, hefur Íslandsbanki nú þegar tryggt sér um 46% hlutabréfa í BNbank.

Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði og hyggst leggja áherslu á frekari vöxt á norska markaðnum. BNbank er afar samkeppnishæft og vel rekið fjármálafyrirtæki, sem náð hefur markverðum árangri og fellur vel að stefnu Íslandsbanka. Tilkoma BNbank, með sinn trausta rekstur og öfluga árangur, mun marka stöðu og afkomu Íslandsbanka umtalsvert í framtíðinni.

Helstu atriði varðandi tilboðið:
· Tilboðsgengi er 320 norskar krónur á hlut greitt í peningum
· Tilboðsfjárhæð samtals 3,1 milljarður norskra króna
· Yfirverð um 19% umfram gengi í síðustu viðskiptum
· Vextir frá samþykki tilboðs til greiðsludags eru 3% á ársgrundvelli
· Áætlað tilboðstímabil frá og með 29. nóvember til og með 17. desember

Íslandsbanki hefur gengið frá samningi við Sparbanken Øst um kaup á 20% hlutafjár í BNbank. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki yfirvalda. Íslandsbanki hefur einnig keypt hlutabréf á markaði og á nú samtals 9,8%. Því til viðbótar hefur bankinn fengið vilyrði fyrir samþykki tilboðsins sem jafngildir um 16% hlutafjár í BNbank. Samanlagt á Íslandsbanki og hefur tilkall til um 46% eignarhlutar.

Tilboðið í BNbank er háð hefðbundnum skilyrðum. Eftirfarandi skilyrði eru þar á meðal:

· Lögbundið samþykki yfirvalda
· Samþykki hluthafa sem fara með yfir 90% hlutafjár í BNbank
· Ásættanlegar niðurstöður áreiðanleikakönnunar
· Engin umtalsverð neikvæð breyting verði á fjárhagsstöðu, viðskiptastöðu eða rekstri BNbank.

Íslandsbanki mun fjármagna kaupin með útgáfu nýrra hluta og með víkjandi lánum.

Framtíðarsýn Íslandsbanka er að sameina Íslandsbanka og BNbank í öfluga íslensk-norska bankasamstæðu. Hyggst Íslandsbanki kanna kosti samhliða skráningar hlutabréfa bankans í Kauphöllinni í Ósló auk Kauphallar Íslands.

Íslandsbanki stefnir að því að BNbank verði áfram sjálfstæð eining og að kjarnastarfsemi bankans verði þróuð áfram, líkt og að er stefnt með KredittBanken. Markmið Íslandsbanka er að efla starfsemina í Noregi með fjárhagslegum stuðningi og auknu vöruframboði.

Íslandsbanki áformar að höfuðstöðvar BNbank verði í Þrándheimi eins og verið hefur og hefur sóst eftir að núverandi stjórnendur leiði starfsemi bankans áfram.

Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi og hefur með innri vexti aukið alþjóðlega starfsemi sína með góðum árangri á undanförnum árum. Í Noregi hefur Íslandsbanki í auknum mæli lánað til lítilla og meðalstórra sparisjóða, auk hefðbundinna atvinnugreina. Með hliðsjón af öflugum og traustum efnahag, arðsömum rekstri og greiðum aðgangi að fjármagni er ljóst að frekari vaxtageta Íslandsbanka er umtalsverð.

Fyrr á þessu ári gerði Íslandsbanki tilboð í KredittBanken í Álasundi og samþykktu hluthafar með yfir 99% hlutafjár tilboðið. Íslandsbanki bíður samþykkis norska fjármálaráðuneytisins á kaupum á KredittBanken en norska fjármálaeftirlitið hefur þegar mælt með samþykki..

Tilboðsgögn verða útbúin og send hluthöfum BNbank eins fljótt og kostur er segir í tilkynningu Íslandsbanka.