Að loknum viðræðum við stjórn Kredittbanken AS í Noregi, hefur Íslandsbanki hf. ákveðið að gera hluthöfum Kredittbanken tilboð í hlutabréf félagsins á verðinu 7,25 norskra krónur. Stjórn félagsins mun mæla með tilboðinu við hluthafa og hafa stjórnarmenn og félög sem þeir eru í forsvari fyrir þegar samþykkt sölu á þeirra bréfum, sem nemur um 19% eignarhlut í bankanum. Tilboðsgengi jafngildir rúmum 3,5 milljörðum íslenskra króna fyrir allt hlutafé í bankanum og er 32% yfir lokagengi 11. ágúst 2004.

Tilboðið er gert með fyrirvara um samþykkti 90% hluthafa og að gefin verði heimild til kaupanna af hálfu lögbærra yfirvalda í Noregi og á Íslandi.
Undanfarin ár hefur Íslandsbanki byggt upp þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki víða um heim, meðal annars í Noregi. Fyrirhuguð kaup á Kredittbanken eru í samræmi við þessa uppbyggingu, en meðal viðskiptavina Kredittbanken er fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja á vesturströnd Noregs. Þá hefur útibú Íslandsbanka í Lúxemborg þjónað litlum og meðalstórum fjármálafyrirtækjum í Noregi um nokkurt skeið. Íslandsbanki hyggst með kaupunum á Kredittbanken efla þjónustu sína í Noregi enn frekar.

Kredittbanken AS var stofnaður árið 1992 og hefur sérhæft sig í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki í Álasundi og nágrenni. Starfsmenn eru 25. Eigið fé Kredittbanken 30. júní sl. jafngilti um 3,8 milljörðum íslenskra króna og hagnaður á fyrri hluta ársins nam rúmum 60 milljónum íslenskra króna. Heildareignir Kredittbanken í lok júní jafngiltu 37,4 milljörðum íslenskra króna og útlán 27,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfall mælt á CAD grunni var 16%, þar af A-hluti 11,2%. Hlutabréf félagsins eru skráð í kauphöllinni í Ósló.