Afkoma Íslandsbanka eftir skatta var jákvæð um 23,4 milljarða árið 2012 samanborið við 1,9 milljarð árið 2011 en þar gætti áhrifa vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild í kjölfar yfirtöku Byrs sem olli einskiptiskostnaði upp á 17,9 milljarða króna, að því er segir í tilkynnningu.

Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi var 7,2 milljarðar samanborið við 9,5 milljarða tap á fjórða ársfjórðungi 2011.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 17,2%, samanborið við 1,5% árið 2011. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 11,6%, samanborið við 11,0% árið 2011. Skattar og gjöld greidd ríkisstofnunum voru 9,3 milljarðar á árinu, samanborið við 2,0 milljarða á árið 2011.

Heildareignir jukust úr 796 milljörðum króna í árslok 2011 í 823 milljarða í árslok 2012 og eigið fé jókst um 19,4% á árinu og nam í árslok 148 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall er 25,5%, en var 22,6% í árslok 2011.

Vaxtamunur minnkaði milli ára, var 4,5% árið 2011 en 2,9% í fyrra. Þá kemur fram í tilkynningunni að frá stofnun bankans hafa um 20.900 einstaklingar og um 3.660 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema um 463 milljörðum króna.

Heildarinnlán við árslok námu 509 milljörðum, samanborið við 526 milljarða í árslok 2011.

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í tilkynningunni að miklum árangri hafi verið náð í fjárhagslegri endurskipulagningu. „Stórum málum lauk á árinu og brátt sér fyrir endann á endurútreikningi ólöglegra gengistryggðra lána. Íslandsbanki féll frá þremur dómsmálum á árinu til að flýta endurútreikningi og endurreiknar nú 15.000 lán. Hlutfall lána í endurskipulagningu hefur því lækkað umtalsvert eða úr 22.6% í 13.7%. Jákvæðir úrskurðir ESA varðandi þær aðgerðir sem gripið var til 2008 hafa einnig dregið úr óvissu í rekstri bankans. Þessi atriði ásamt meira lífi á fjármálamarkaði gefur til að kynna að það séu að verða þáttaskil í rekstri bankans og starfsumhverfi okkar.“