Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta var 15,6 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins, sem er lækkun úr 16,7 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi nam 2,5 milljörðum króna,en á sama tíma í fyrra nam hann 5,9 milljörðum króna.

Skýrir fyrirtækið góðan hagnað á árinu út frá sterkum grunntekjum og einskiptishagnaðar vegna sölu Borgunar á hlutabréfum í Visa Europe. Á móti þurfti fyrirtækið að greiða 1,2 milljarða í einskiptikostnað vegna skemmda á núverandi höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi.

Arðsemi eigin fjár lækkaði milli ára og fór í 10,3% úr 11,9% á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 11,2 milljörðum sem er eilítil lækkun frá 11,8 milljarða lækkun í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 13% milli ára og námu í ár 23,7 milljörðum króna. Á þriðja árshluta námu þær 7,8 milljörðum króna. Skýrist það af háu vaxtaumhverfi og auknu eigin fé. Hreinar þóknanatekjur á ársfjórðungnum námu 3,2 milljörðum króna.

Heildareignir bankans í lok tímabilsins námu 1.068 milljörðum króna, en 95% af heildarefnahagsreikningi eru lán til viðskiptavina og lausafjáreignir.

Frá áramótum jukust útlán viðskiptavina um 2,8% og fóru þau í 684,2 milljarða króna. Hlutfall lána með vanskil umfram 90 daga nam 2,3%.

Eiginfjárhlutfallið var 27,8% en 138 milljón evra víkjandi skuldabréf var endurgreitt í september.

Lausafjárstaða bankans er umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið, en í lok september var lausafjárþekjuhlutfallið 195% og fjármögnunarhlutfallið 126%. Jafnframt telst vogunarhlutfallið afar hóflegt, en það er 17,7% við lok tímabilsins samanborið við 18,3% í lok júní 2016.

Á tímabilinu gaf bankinn út þrjú skuldabréf í erlendri mynt, eitt í ágúst sem nam 500 milljón evra, í janúar var annað gefið út fyrir 35 milljónir Bandaríkjadala og svo voru útistandandi skuldabréf stækkuð um 75 milljón evra í maí.