*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 29. nóvember 2004 08:26

Íslandsbanki hækkar tilboð í BNbank í Noregi

? hefur tryggt stuðning 60% hlutabréfa

Ritstjórn

Íslandsbanki hf. hefur hækkað tilboð í öll hlutabréf norska bankans BNbank (Bolig og Næringsbanken ASA) í 340 norskar krónur á hlut. Ef lögð eru saman hlutabréf sem þegar eru í eigu Íslandsbanka og vilyrði sem gefin hafa verið fyrirfram um sölu bréfa í samræmi við tilboðið, hefur Íslandsbanki nú þegar tryggt sér um 46% hlutabréfa í BNbank. Til viðbótar hafa nú hluthafar sem hafa yfir að ráða 14% hlut í BNbank lýst því yfir að þeir muni samþykkja tilboð Íslandsbanka.

Eftir að Íslandsbanki gerði formlegt tilboð í BNbank hafa farið fram viðræður við ráðgjafa stjórnar og framkvæmdastjórnar BNbank. Eftir þessar viðræður hefur Íslandsbanki hækkað tilboðsverð í 340 norskar krónur, úr upphaflegu tilboði sem hljóðaði upp á 320 norskar krónur.

Helstu atriði varðandi tilboðið:
· Tilboðsgengi er 340 norskar krónur á hlut greitt í peningum
· Tilboðsfjárhæð samtals 3,3 milljarðar norskra króna
· Yfirverð um 26% umfram gengi í síðustu viðskiptum áður en tilboðið var lagt fram 15. nóvember
· Vextir frá samþykki tilboðs til greiðsludags eru 3% á ársgrundvelli
· Áætlað tilboðstímabil er frá og með 1. desember til og með 17. desember

Eftir hækkun tilboðsins hefur Íslandsbanki fengið viðbótar vilyrði fyrir um 14% hlutabréfa í BNbank, sem veldur því að samanlagt nema hlutabréfaeign og fyrirfram vilyrði Íslandsbanka eru um 60%. Innifalin í því eru 20% sem Íslandsbanki hafði áður gert samning um að kaupa af Sparebanken Øst (sem háð er samþykki norskra yfirvalda), 9,8% hlutur sem Íslandsbanki hafði keypt á markaði og fyrirfram vilyrði sem Íslandsbanki hafði áður fengið fyrir um 16% hlutafjár í BNbank.

Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði og hyggst leggja áherslu á frekari vöxt á norska markaðnum. Eftir góðar og árangursríkar viðræður við ráðgjafa stjórnar og framkvæmdastjórnar BNbank undirstrikar Íslandsbanki þær áætlanir að BNbank verði sjálfstæð eining og að kjarnastarfsemi bankans verði þróuð áfram frá höfuðstöðvum bankans í Þrándheimi. Íslandsbanki skuldbindur sig til að viðhalda starfsmannafjölda BNbank og efla starfsemina í Noregi, sem einnig felur í sér Kredittbanken, með fjárhagslegum stuðningi og auknu vöruframboði.

Tilboðsgögn verða útbúin og send hluthöfum BNbank áður en formlegt tilboðstímabil hefst 1. desember.